þriðjudagur, 31. júlí 2007

Rauða Rafha eldavélin


...dó í kvöld. Tengdapabbi gaf okkur þessa forlátu Rafha eldavél þegar við fluttum inn í bílskúrinn fyrir tveimur jólum síðan og hefur reynst okkur vel. Þar til nú :( Ef þið vitið um notaða ódýra eða gefins eldavél endilega látið mig vita.

sunnudagur, 29. júlí 2007

Veggurinn

Erum búin að rífa utan af veggnum í samvinnu við nágrannana. Hann lítur vel út, virðist svolítið hár en það á eitthvað eftir að fylla að honum. Múrum hann líklega ekki fyrr en næsta sumar. Byrjaði að grunna húsið í morgun en þurfti að hætta í hádeginu vegna úrhellis. Vonandi rignir ekki á morgun. Engin sunnudagsmynd að þessu sinni.

föstudagur, 27. júlí 2007

Sílan útskýringar :)

Sílan vatnsver steypuna. Fer inn í allar glufur og sprungur og lokar steypunni. Eftir það grunna ég múrinn með ákveðnu efni og að lokum mála ég húsið í lit að eigin vali. Var að prófa sprautuna í morgun með vatni. Það var rigning í nótt þannig að ég ætla að láta vegginn þorna örlítið betur áður. Alltaf svolítið stressuð að byrja á einhverju sem ég hef ekki prófað áður.

fimmtudagur, 26. júlí 2007

Steypa

Steyptum vegginn í gær. Vorum fimm tíma að steypa og ganga frá. Í dag byrjum við að rífa utan af veggnum og skafa. Tilfinningin er eins og að opna jólapakka. Jæja, best að drífa mig út og plasta gluggana. Stefni á að sílanbera hluta hússins í fyrramálið, þ.e. þær hliðar sem búið er að múra í kringum gluggana. Með smá verkkvíða :(... Er a.m.k. búin að þrífa þær hliðar á húsinu sem tilbúnar eru og gluggana að auki.

sunnudagur, 22. júlí 2007

Sunnudagsmyndin

Er að rækta alls konar kryddjurtir, þar á meðal graslauk. Hægt að nota hann í ýmislegt.

Kjúklingauppskrift

Gerði svolítið góðan kjúklingarétt í gærkvöldi eftir púl dagsins. Fékk þessa uppskrift í Fréttablaðinu en breytti henni smá.

5-600 gr kjúklingabringur (Var með kjúklingaleggi)

Kryddlögur
2 stór hvítlauksrif
1 chilipipar (notaði chilikrydd)
1 dl sojasósa
2 matskeiðar límónusafi (notaði sítrónu)
1 msk nýhakkað engifer
2-3 búnt vorlaukur (notaði 1/2 púrrulauk og 1/2 rauðlauk)

Olía til steikningar
1-1,5 dl kjúklinga eða grænmetissoð

Marineraði kjúklingaleggina í kryddleginum (nema púrrulaukinn og rauðlaukinn) í um 30 mínútur. Léttsteikti leggina og setti þá í eldfast mót og hellti kryddleginum yfir. Steikti laukinn og dreifði honum yfir. Leyfði þessu svo að malla í ofninum í um 40 mínútur. Bera þetta fram með hrísgrjónum eða núðlum. Ef kjúklingabringur eru notaðar er best að skera þær í ræmur og steikja þær.

laugardagur, 21. júlí 2007

Wall Street

Erum að slá upp vegg í samvinnu við nágrannanna. Fjögur hús liggja að veggnum. Það kemur sér vel að þrír eru smiðir og svo er einn skipstjóri sem gefur þeim ekkert eftir. Allir hjálpast að enda eigum við bestu nágranna í heimi. Markmiðið er að steypa n.k. miðvikudag. Gatan hefur fengið viðurnefnið "Wall Street".

fimmtudagur, 19. júlí 2007

Elsku Katrín

Þessi síða er sérstaklega búin til handa þér. Nú getum við fylgst betur með hvor annarri.

Þín stóra systir, Ingedda